„Heppnaðist betur en okkur hefði geta dreymt um“
Aðspurð hvort þau hafi eytt löngum tíma í að skipuleggja brúðkaupið svarar Lóa kímin að svo hafi ekki verið.
„Ég kom heim úr tökum fyrir um það bil þremur vikum. Þegar ég var komin heim var það eina sem við vissum hvaða dag við ætluðum að gifta okkur, hvar og hver myndi gefa okkur saman. Eiginlega sama dag og ég kom heim fór tilvonandi eiginmaður minn erlendis í viku þannig þetta var allt svolítið á síðasta snúningi hjá okkur.
En þrátt fyrir að þetta hafi allt farið marga hringi og við þurft að grípa í plan B og C í ýmsu þá heppnaðist þetta betur en okkur hefði geta dreymt um.“

Iðnó fullkominn staður fyrir þessa ástarhátíð
Bæði veislan og athöfnin fór fram í Iðnó, en rýmið er í miklu uppáhaldi hjá Lóu.
„Ég er trúlaus kona og vildi gifta mig borgaralega sem maðurinn minn samþykkti. Ég átti mér þá einu ósk að náttúruaflið og gleðisprengjan Katrín Oddsdóttir myndi gefa okkur saman. Það tókst og hún var algjör snillingur.
Það svoleiðis geislar af henni lífsorkan og hún var algjörlega frábær athafnarstjóri. Svo er Iðnó auðvitað fegursti salur á höfuðborgarsvæðinu. Húsið og staðurinn hélt fallega og vel utan um þessa ástarhátíð.“
Veisluhöldin stóðu langt fram eftir kvöldi þar sem hinir ýmsu tónlistarmenn stigu á stokk.
„Vinur okkar Einar Jónsson básúnuleikari hóf brúðarmarsinn á píanó áður en við gengum inn í sal. Eins og við höfðum óskað eftir stoppaði hann í miðju kafi rétt áður en við komum inn í salinn og tilkynnti gestunum að þetta væri ekki sú tónlist sem brúðhjónin vildu víst.
Þá brast á með dúndrandi flamingo lagi sem heitir því mjög óbrúðkaupslega nafni The Plaza of Execution úr Zorro mynd. Eiginmanni mínum fannst titillinn ekki alveg við hæfi en það er bara svo geggjaður taktur í þessu lagi að hann lét sig hafa það,“ segir Lóa, hlær og bætir við:
„Þannig að við rifum upp hurðina, komum dansandi inn í snúningssveiflu og stöppuðum um gólfið. Það ætlaði allt að verða vitlaust af fjöri.“
Hér má heyra lagið The Plaza of Execution:
Hafa saman reynt að læra á gítar
Að sögn Lóu kemur Jónas úr mjög músíkalskri fjölskyldu en dætur hans sungu í athöfninni við gítarspil bróður hans.
„Þau tóku Vor í Vaglaskógi í útgáfu Kaleo og það var algjörlega gullfallegt.
Dætur Jónasar brilleruðu algjörlega og það var ekki þurr þráður á nokkrum manni eftir þann flutning. Ég hágrét.“

Lagið á sérstakan og skemmtilegan stað í hjörtum hjónanna.
„Við Jónas erum bæði tvö búin að vera að hamast við að reyna að læra á gítar undanfarin ár. Hann hefur dregið mig áfram í því þar sem hann er skárri en ég. Einhvern daginn í Covid byrjaði hann svo að reyna að plokka þessa hræðilega erfiðu útgáfu Kaleo af þessu lagi.
Við erum bæði búin að reyna við þetta í nokkur ár en það tók svo bróður hans nokkra daga að læra þetta,“ segir Lóa kímin. Þegar blaðamaður spyr hvort þau hafi ekki viljað spila undir með honum svarar hún hlæjandi: „Heldur betur ekki, það hefði verið hræðilegt.
Þegar við vorum svo búin að setja hring á fingur, kyssast og fá glimmerbombuna yfir okkur þá slúttuðum við athöfninni á tónlistaratriði tveggja bræðra Jónasar, sem hófu að syngja viðlagið við danska Eurovision lagið Fly On The Wings of Love. Allur salurinn tók undir.“

Löðursveittur dans fram eftir kvöldi
Veislustjórar kvöldsins voru Ragnheiður Bjarman Eiríksdóttir og Valdimar Örn Flygenring og segir Lóa að þau hafi stýrt þessu öllu með miklum glæsibrag.
„Svo var dansað fram eftir kvöldi en okkur tókst að berja saman hljómsveit á síðustu stundu.“
Þá hafi unnið vel með þeim hve músíkölsk fjölskylda Jónasar er.
„Tveir bræður hans voru í hljómsveitinni ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni og Daníel Brandi. Svo flaug einn vinur Jónasar óvænt frá Bandaríkjunum til Íslands en hann er hörku píanisti og gítarleikari og var á hljómborðinu. Ég var því löðursveitt að dansa.“

Umbreytti brúðarkjólnum viku fyrir stóra daginn
Lóa Pind klæddist glæsilegum hvítum kjól sem varð til örskots stundu fyrir brúðkaupið.
„Ég var búin að hafa samband við Selmu Ragnarsdóttur klæðskera í ágúst og segja henni að ég vildi gjarnan fá hana til að sauma á mig brúðarkjól. Ég fór á mikið flakk í haust en lét hana fá efni sem ég hafði keypt á korteri á Spáni í sumar og sýndi henni hugmynd að kjól sem mig langaði í. Hugmyndin var þá að ég yrði í svörtum kjól.
Selma var svo næstu mánuði að dúttla honum áfram en viku fyrir brúðkaup leist mér ekki alveg á hvert þetta væri að fara og þurfti aðeins að endurskoða hugmyndina mína að kjólnum. Mér leið eins og ég væri frekar á leið í hrekkjavökupartý en í brúðkaup,“ segir Lóa og bætir við að viku fyrir brúðkaup hafi hún því snarbreytt um kúrs.
„Svo riggaði Selma upp þessum geðveika kjól. Þetta var svipuð pæling og í upphafi nema hún virkaði bara mikið betur í hvítu.“
Hér má sjá fleiri myndir frá stóra degi Lóu Pind og Jónasar:





