Karólína Lea var í byrjunarliðinu og lagði upp fyrsta mark leiksins sem Synne Hansen skoraði á 17. mínútu. Var þetta þriðja stoðsending Karólínu Leu á leiktíðinni en hún hefur nú komið að sjö mörkum þar sem hún hefur skorað fjögur. Það tók heimaliðið hins vegar aðeins tvær mínútur að jafna metin og staðan því 1-1 í hálfleik.
Heimaliðið komst yfir þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þó svo að Karólína Lea hafi verið tekin af velli á 77. mínútu tókst Leverkusen að jafna metin áður en flautað var til leiksloka, lokatölur 2-2.
Leverkusen er í 3. sæti með 12 stig, einu minna en Wolfsburg sem er í 2. sæti og tveimur minna en topplið Bayern München. Toppliðin tvö eiga þó leik til góða.