Meirihluti meintra brota mannsins eiga að hafa átt sér stað í fangelsi árið 2021, en samkvæmt heimildum Vísis voru þau flest á Litla-Hrauni.
Fyrstu sex ákæruliðir málsins varða hótanir í garð fangavarða á tímabilinu mars til nóvember 2021. Í fyrsta töluliðnum er manninum gefið að sök að hóta tveimur fangavörðum að „hella hlandi yfir þá og troða skít upp í þá og alla aðra fangaverði.“
Útbjó stunguvopn sjálfur
Síðan hafi hann hótað tveimur fangavörðum að stinga þá og berja með stunguvopnum sem hann hafði í fórum sínum. Fram kemur að vopnin hafði maðurinn sjálfur útbúið, úr járni af brotnum vaski í fangaklefa.
Í öðrum ákærulið segir að maðurinn hafi slegið fangavörð í gagnauga með krepptum hnefa, og hrækt á tvo aðra fangaverði. Fram kemur að hrákinn hafi endað á auga annars þeirra og á kinn hins.

Síðasti ákæruliðurinn af þessum sex varðar hótanir mannsins í garð nokkurra fangavarða. Hann hafi sagt þeim að hann ætlaði að skíta í bolla og maka því framan í fangaverði og kasta þvagi í þá. Þá segir að þegar tveir varðanna hafi kíkt í gengum lúgu á fangaklefa mannsins hafi hann staðið við hurðina með pappaglas sem innihélt glærkenndan vökva. Ekki er greint frá því hvers konar vökva var um að ræða.
Einn fangavörðurinn krefst rúmrar milljónar í skaðabætur.
Ítrekaðar hótanir til nákominnar konu
Næstu sjö ákæruliðir varða brot í nánu sambandi. Manninum er gefið að sök að hafa frá því í apríl 2021 þangað til í nóvember sama ár hótað sama einstaklingum í nokkur skipti. Ekki kemur nákvæmlega fram hvernig maðurinn tengist einstaklingum, en hægt er að lesa úr ákærunni að um konu er að ræða.
Hótanirnar vörðuðu líflát og ofbeldi. Með þeim á maðurinn að hafa ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar.
Hún krefst 1,5 milljóna í miskabætur frá manninum.
Braut og bramlaði
Síðan er maðurinn ákærður fyrir fjögur brot, er varða eignaspjöll í fangelsinu. Einn ákæruliðurinn í þeim efnum er ansi umfangsmikill, en þar er meintum berserksgangi mannsins lýst.
Honum er gefið að sök að hafa með pottum og pönnum slegið í ýmsa muni og tæki í eldhúsi fangelsisins. Til að mynda hafi örbylgjuofn fallið til jarðar og skúffur og skápahurðir brotnað. Þá hafi hann slegið með potti í öryggismyndavél sem losnaði og féll í gólfið. Síðan hafi hann brotið tvo skúringakústa og stappað á örbylgjuofni.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að eyðileggja síma fangelsisins í fjórgang, brotið vask, DVD-spilara, og rispað DVD-diska.
Þá er honum gefið að sök að hafa brotið blöndunartæki þannig að töluvert lak út á gólf. Einnig hafi hann eyðilagt neyðarútgangsljós í fangelsinu.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessari viku, en héraðssaksóknari sækir málið. Þess er krafist að hann verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.