„Finnur er menntaður í óperusöng og hefur lokið meistaragráðu í menningarstjórnun frá Bifröst með hæstu einkunn. Hann var um árabil fastráðinn söngvari við Komische Oper í Þýskalandi og hefur sem atvinnumaður og einsöngvari einstaka reynslu. Eftir nám á Bifröst hefur Finnur lagt stund á rannsóknir í menningarstjórnun við Bifröst,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Eins og fyrr segir sóttu tólf um starfið en einn dró umsókn sína til baka. Undirbúnings- og ráðgjafanefnd vegna stofnunar þjóðaróperu taldi Finn uppfylla best skilyrðin sem sett voru fram í auglýsingu um starfið og var hann talinn standa öðrum umsækjendum framar.