„Gott að sigra á erfiðum útivelli gegn góðu liði. Fáum tvo erfiða útileiki núna í röð, Valur og svo Tindastóll þannig að það er gott að ná sigri hér í kvöld“ sagði þjálfarinn strax að leik loknum.
Stjarnan hefur verið með þunnskipaðan hóp í upphafi tímabils, liðið samdi ekki við neinn Bandaríkjamann fyrir tímabil og missti svo mann í meiðsli rétt áður en tímabilið hófst. Stjarnan samdi loks í síðustu viku við Bandaríkjamanninn James Ellisor og endurheimti svo Kevin Kone úr meiðslum fyrir þennan leik.
„Við þurfum að finna aðeins róteringuna, þetta er í fyrsta skipti sem þetta lið spilar saman og ég var kannski klaufalegur í skiptingum. Var ekki alltaf með gott jafnvægi og réttu blönduna inni á öllum stundum, en annars mjög gott.“
Stjarnan var að elta Val allan fyrri hálfleikinn og allt stefndi í heimasigur en þegar komið var út í seinni hálfleikinn hertu gestirnir varnarleikinn verulega og unnu leikinn að endingu nokkuð örugglega.
„Það var næstsíðasta 'playið' í fyrri hálfleik þar sem við settum orku í varnarleikinn og þá föttuðum við allt í einu að við þurfum að spila af krafti varnarlega. Þetta er það sama og gerðist á móti Keflavík, flatur fyrri hálfleikur varnarlega. Við þurfum að læra fljótt og þurfum vonandi ekki að brenna okkur mikið á því að tapa.“
Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum tímabilsins hefur Stjarnan nú unnið þrjá í röð. Þjálfarinn segir liðið samt eiga eftir að leggja inn mikla vinnu ætli þeir sér að gera atlögu að titlinum.
„Við eigum langt í land, eins og mörg lið. Við erum að bæta okkur þó mér fannst frammistaðan í fyrstu tveimur leikjunum alveg mjög fín líka. Spiluðum oft á tíðum lengur betur þar heldur en í kvöld og á móti Keflavík. Það munar öllu að geta spilað af þessari ákefð í lengri tíma“ sagði Arnar að lokum.