Lífið

„Þetta er algjör vitleysa!“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
De Niro virtist heldur fýldur og ósáttur við að sæta yfirheyrslu.
De Niro virtist heldur fýldur og ósáttur við að sæta yfirheyrslu. Getty/Gotham

„Þetta er algjör vitleysa!“ hrópaði Robert De Niro í réttarsal í New York í gær, þegar hann bar vitni í dómsmáli sem fyrrverandi starfsmaður leikarans höfðaði gegn honum.

Graham Chase Robinson, sem starfaði fyrir De Niro frá 2008 til 2019, hefur sakað hann um illa meðferð en þrátt fyrir að hafa verið titluð varaforseti framleiðslu og fjármála hjá framleiðslufyrirtæki De Niro, Canal Productions, og verið með rúmar 40 milljónir í árslaun sinnti hún ýmsum störfum fyrir leikarann.

Samkvæmt gögnum málsins sá Robinson meðal annars um að skreyta jólatré De Niro. Þá var hún um tíma skráð sem sá aðili sem hafa átti samband við í neyðartilfellum og var sú sem leikarinn hringdi í þegar hann datt niður stiga og þurfti að fara á spítala.

De Niro játaði í réttarsal að Robinson hefði sinnt þessum viðvikum en virtist ekki par sáttur við frammistöðu hennar þegar lögmaður hennar spurði að því hvort hann teldi að hún hefði verið samviskusamur starfsmaður.

„Ekki eftir allt sem ég er að ganga í gegnum núna,“ svaraði De Niro, sem virtist heldur fýldur.

Leikarinn hækkaði róminn að minnsta kosti tvisvar í réttarsalnum, þegar hann tók til varnar fyrir kærustu sína sem Robinson hefur sakað um að hafa grafið undan sér og þegar lögmaður Robinson sakaði DeNiro um að hafa truflað skjólstæðing sinn um nótt þegar hann þurfti að komast á sjúkrahús.

„Það var þegar ég meiddi mig í bakinu þegar ég datt niður stigann!“ hrópaði De Niro reiðilega. Hann hefði meira að segja náð að skríða sjálfur aftur í rúmið rétt eftir miðnætti og beðið með að hafa samband við Robinson þar til klukkan fjögur eða fimm um morguninn.

Dómarinn þurfti ítrekað að minna De Niro á að það giltu reglur um vitnisburð og að það væru takmörk á því hvað hann mætti segja. Þá var beiðni leikarans um að fá að spyrja spurningar hafnað.

De Niro sagðist ávallt hafa komið vel fram við Robinson en samskipti leikarans og kærustu hans, Tiffany Chen, voru lögð fram sem sönnunargögn í málinu og sýna vaxandi grunsemdir Chen í garð Robinson. 

Sagðist Chen þykja að Robinson hegðaði sér eins og hún væri eiginkona De Niro og hefði búið til fantasíu um mikla nánd þeirra á milli. De Niro sagði Chen mögulega hafa haft rétt fyrir sér hvað þetta varðaði.

Lögmaður Robinson sagði Chen hins vegar hafa verið afbrýðisama út í skjólstæðing sinn. De Niro hefði hrópað að henni og kallað hana illum nöfnum á meðan hún starfaði fyrir hann og að Robinson hefði ekki fengið vinnu né þorað að fara að heiman eftir að hún hætti. 

De Niro hefði ekki viljað gefa henni meðmæli.

Lögmaður De Niro sagði leikarann hins vegar alltaf hafa komið vel fram við Robinson en henni hefði hún fundist verðskulda eitthvað meira en hún fékk. De Niro hefði verið góður, sanngjarn og örlátur og að vitnisburður annarra starfsmanna Canal Productions varpa ljósi á málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.