Stjarnan segir frá samningi við bandaríska körfuboltamanninn James Ellisor. Stjörnumenn hafa leikið án Bandaríkjamanns í upphafi leiktíðar og missti líka öflugan erlendan leikmann i meiðsli rétt fyrir tímabilið.
Ellisor er 33 ára reynslubolti og kemur frá Phoenix í Arizona fylki.
Hann lék síðast með Benfica og var þá með 7,6 stig, 2,9 fráköst og 1,5 stoðsendingu í leik. Besta tímabilið sitt í Portúgal átti hann 2018-19 þegar hann skoraði 17,0 stig og gaf 3,2 stoðsendingar í leik með UD Oliveirense.
Ellisor var mjög sigursæll þegar hann spilaði í Portúgal þar sem hann hefur unnið portúgalska meistaratitilinn fjórum sinnum frá árinu 2018. Hann hefur einnig orðið portúgalskur bikarmeistari þrisvar sinnum.
Ellisor náði að vinna þessa sjö titla með þremur félögum í Portúgal en auk þess að spila sjö tímabil í Portúgal þá hefur hann leikið bæði á Spáni og í Frakklandi.
Stjörnumenn vonast til þess að hann verði kominn með leikheimild í leiknum á móti Keflavík í kvöld.