Það er The Guardian sem greinir frá og vitnar miðillinn í dómsskjöl sem hann hefur í höndunum. Howard, sem varð NBA meistari með liði Los Angeles Lakers árið 2020 og var valinn átta sinnum í stjörnulið deildarinnar, vill að málið sem umræddur maður hefur nú farið með fyrir dómstóla verði látið niður falla.
Howard segist hafa átt í kynferðislegu samneyti við manninn og að það hafi verið með hans samþykki. Hann hafnar öllum ásökunum um að hafa brotið á honum.
Howard og meintur þolandi eru sagðir hafa byrjað að eiga í samskiptum í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram. Þau samskipti hafi síðan leitt það af sér að þeir hittust í Suwanee, útvherfi Atlanta í Georgíuríki í júlí árið 2021. Þar er Howard sagður hafa brotið kynferðislega á manninum.
Lögmaður meinta þolandans segir skjólstæðing sinn þvertaka fyrir að hafa samþykkt að stunda kynferðislegt samneyti með Howard líkt og fyrrum NBA leikmaðurinn heldur fram. Það hafi verið fyrirséð að Howard myndi grípa til þeirrar varnar.
Lögmannateymi Howard heldur því hins vegar fram að meinti þolandinn sé að reyna kúga fé út úr honum í skiptum fyrir þögn hans.
Gögnin sem liggja fyrir í málinu innihalda meðal annars skjáskot af samskiptum Howard við manninn í gegnum Instagram á sínum tíma. Ári eftir að meint brot er sagt hafa átt sér stað fór maðurinn til lögreglunnar og tilkynnti brotið.