Enski boltinn

Brighton án Welbeck og Solly March í lengri tíma

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Welbeck fór meiddur af velli um helgina
Welbeck fór meiddur af velli um helgina Vísir/Getty

Solly March og Danny Welbeck, leikmenn Brighton í ensku úrvalsdeildinni, verða frá keppni til lengri tíma vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir í leik liðsins gegn Manchester City síðustu helgi. 

Brighton var marki undir þegar komið var fram í uppbótartíma og gerðu allt sem þeir gátu til að jafna leikinn. Solly March virtist hafa snúið upp á hnéð sitt á loka-mínútunum og var tekinn af velli rétt áður en flautan gall. 

Welbeck hafði verið skipt útaf mun fyrr í leiknum vegna meiðsla í nára, hann fór af velli á 16. mínútu fyrir Evan Ferguson. 

„Solly er því miður að glíma við erfið, mjög erfið meiðsli, gríðarlega erfið“ sagði Roberto De Zerbi, þjálfari liðsins við blaðamenn í dag, „Hann verður frá í langan tíma og það sama gildir um Danny Welbeck“ bætti þjálfarinn svo við. 

Welbeck hefur glímt við alls kyns meiðsli allan sinn ferill og misst af 234 keppnisleikjum síðan hann hóf ferilinn með Manchester United árið 2009. Meiðslin hjá Solly March virðast vera gömul meiðsli að minna á sig, hann varð fyrir svipuðum meiðslum í febrúar 2021, hann missti úr restina af tímabilinu. 

Brighton spilar næst gegn Ajax í Evrópudeildinni á fimmtudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×