Innlent

Þriðjungi minni um­ferð morguninn sem kvenna­verk­fall stóð yfir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir veittu því athygli að umferðin var léttari í gærmorgun en aðra morgna.
Margir veittu því athygli að umferðin var léttari í gærmorgun en aðra morgna. Vísir/Kolbeinn Tumi

Bílaumferð í Reykjavík var tæplega þriðjungi minni í gærmorgun en aðra morgna. Samdráttinn má vafalítið rekja til verkfalls kvenna og kvára, sem lögðu niður öll störf í gær.

Reykjavíkurborg fjallar um umferðarmálin á vefsíðu sinni en þar segir að umferðin á milli klukkan 7 og 9 í gærmorgun hafi verið 28 prósent minni en venjulega. Sést þetta með því að skoða upplýsingar frá 66 teljurum í borginni.

„Almennt virðist vera meiri samdráttur bílaumferðar í íbúðagötum en á stofnbrautum, þó Suðurlandsbraut sé ákveðin undantekning á því,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Þar er hins vegar einnig bent á að ekki sé hægt að draga þá ályktun að konur og kvár standi endilega fyrir 28 prósent bílaumferðar á morgnana; mörg hafi ekið til vinnu og sinnt öðrum erindum. 

„Þó er lærdómsríkt að sjá hvernig bílaumferðin hagar sér við breytingu eins og þessa í morgun.

Draga má þá ályktun að mælanlegur samdráttur í bílaumferð á háannatíma hafi mjög mikil áhrif á bæði tafartíma og upplifun fólks af fjölda akandi.“

Þá ber að benda á að mögulega hefur umferðin aukist mjög þegar leið á daginn og konur og kvár söfnuðust saman í tugþúsunda tali í miðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×