Það var á dögunum sem hin 15 ára gamla Kolbrún María Ármannsdóttir, sem var valin besti ungi leikmaður 1.deildarinnar í fyrra, sló rúmlega nítján ára gamalt met Helenu Sverrisdóttur er hún varð yngsti leikmaðurinn í efstu deild til þess að skora 31 stig í einum og sama leiknum. Kolbrún María leikur lykilhlutverk hjá nýliðum Stjörnunnar.
„Þetta hefur verið frábær reynsla hingað til. Að spila á móti betri leikmönnum og fá þessa reynslu, á meðan að maður er enn ungur leikmaður, að spreyta sig í efstu deild á móti leikmönnum á borð við Hildi Björgu og Helenu Sverris. Það er bara geggjað.“
Eins og greint er frá fyrr í fréttinni skrifaði Kolbrún María nafn sitt í sögubækurnar á dögunum er hún varð yngsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar til þess að skora 31 stig og bætti þar með met sem var áður í eigu Helenu Sverrisdóttur og hafði verið í hennar eign síðan árið 2004.
Kolbrún var aðeins 15 ára, níu mánaða og níu daga gömul er hún bætti metið sem Helena hafði sett sextán ára, átta mánaða og fjögurra daga gömul.
Hafðirðu hugmynd um það strax eftir leik að þú hefðir bætt þetta met Helenu?
„Nei ég hafði ekki hugmynd um það. Ég fékk bara símtal seinna frá Arnari þjálfara þar sem að hann sagði mér frá þessu.“

En hvernig var tilfinningin þegar að þú fréttir svo af þessu?
„Það er náttúrulega bara frábært að hafa náð þessu en á sama tíma er ég ekkert að hugsa allt of mikið út í þetta. Ég held bara áfram að gera mitt.“
Hefur staðið undir traustinu
Bróðir Kolbrúnar. Hinn 16 ára gamli Ásmundur Múli Ármannsson. Hlaut eldskírn sína með meistaraflokki Stjörnunnar á síðasta tímabili og hefur á yfirstandandi tímabili verið treyst fyrir fleiri mínútum innan vallar. Þar hefur hann vakið verðskuldaða athygli.
„Það er gaman að taka þátt í þessu verkefni og ég er Arnari þjálfara virkilega þakklátur fyrir traustið sem hann er að sýna mér. Ég vona að ég nái að halda áfram á sömu braut.“

Það sé virkilega gott fyrir hann að vera í Stjörnunni nú þegar að hann sé á þessum mikilvæga tíma á sínum ferli.
„Stjarnan er með virkilega flott yngri flokka starf og hér eru allir tilbúnir í að hjálpa manni þegar að maður er hjálparþurfi.“
Eiga ekki langt að sækja hæfileikana í körfubolta
Ferlar Ásmundar og Kolbrúnar hafa verið skemmtilega samstíga. Bæði urðu þau bikarmeistarar með yngri flokkum Stjörnunnar á síðasta ári og voru þar bæði valin verðmætustu leikmenn keppninnar. Nú eru þau á fullu í meistaraflokksboltanum og plumma sig þar vel.
Systkinin eiga ekki langt að sækja hæfileikana í körfunni. Móðir þeirra, Stefanía Helga Ásmundsdóttir varð á sínum tíma Íslandsmeistari með liði Grindavíkur árið 1997.

„Hæfileikarnir í körfuboltanum koma allir frá mömmu, ekkert frá pabba,“ segir Ásmundur Múli kíminn.
En er talað um eitthvað annað en körfubolta á ykkar heimili?
„Nei eiginlega ekki,“ svarar Ásmundur. „Körfubolta og jú pabba gamla finnst gaman að ræða fótbolta. Þannig að það er mikið rætt um íþróttir á okkar heimili.“
Þrátt fyrir að vera virkilega flottir og efnilegir alhliða leikmenn nú þegar eru systkinin með augastað á eiginleikum hjá hvort öðru sem þau væru til í að bæta við sinn leik.

„Hann er mjög góður í því að koma upp af dripplinu og fara upp í skot. Það er eitthvað sem ég væri til í að bæta í mínum leik,“ svarar Kolbrún María og það stendur heldur ekki á svörum hjá Ásmundi varðandi það hverju úr leik systur hans, hann væri til í að bæta við sinn leik.
„Hún gefst aldrei upp og er alltaf á fullu. Það er eitthvað sem ég væri til í að bæta enn frekar við minn leik. Þrautseigjan sem hún býr yfir.“
Ferill þessara öflugu leikmanna er enn á byrjunarstigi en markmiðin eru háleit og góð.
„Ég vil bara halda áfram að vinna mér inn þessar mínútur sem ég hef verið að fá inn á vellinum,“ segir Ásmundur aðspurður um markmið hans á næstunni. „Skila af mér góðri frammistöðu og bæta mig eftir því sem líður á.“
Þá vill hann sanka að sér því góða sem kemur frá því að spila og æfa með reynslumiklum leikmönnum á borð við Hlyn Bærings og Ægi Þór Steinarsson.
„Þeir eru duglegir við að hjálpa manni. Beina manni í rétta átt. Það er aldrei neitt vesen í kringum þá.“
Kolbrún María er einnig með góð markmið og ætlar að gera sitt til að hjálpa liðinu sínu.
„Ég vil gera mitt besta til að hjálpa Stjörnunni að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Það er markmiðið hjá okkur. Við erum náttúrulega nýliðar í deildinni en stefnum bara á að vinna eins marga leiki og við getum og tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni.“
Innslagið úr Sportpakka Stöðvar 2 og viðtalið allt við systkinin má sjá í spilaranum hér að ofan.