Sport

Mary Lou Retton berst fyrir lífi sínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mary Lou á ÓL árið 1984.
Mary Lou á ÓL árið 1984. vísir/getty

Fimleikagoðsögnin Mary Lou Retton liggur nú á gjörgæslu á spítala í Texas og er illa haldin.

Hin 55 ára gamla Retton er með mjög sjaldgæfa lungnabólgu sem hefur lagst þungt á hana. Hún hefur legið á gjörgæslunni í viku og getur ekki andað án aðstoðar.

Það er dóttir hennar sem greinir frá þessu en Retton er ekki með sjúkratryggingu og því hefur dóttirin hafið söfnun til þess að greiða sjúkrahúskostnaðinn.

Retton fangaði athygli heimsbyggðarinnar á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 1984 er hún varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna gullverðlaun í fimleikum. Hún var þá aðeins 16 ára gömul.

Í kjölfarið varð hún heimsfræg. Fékk tækifæri í sjónvarpi og varð fyrsta konan til þess að komast framan á Wheaties-morgunkornið sem er venjulega til marks um að einhver hafi virkilega slegið í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×