Andri hefur leikið lykilhlutverk með Lyngby á yfirstandandi tímabili, skorað sex mörk og gefið eina stoðsendingu í átta leikjum. Frammistaða sem hefur unnið honum inn sæti í íslenska landsliðinu á nýjan leik.
„Ég ræddi við Andra Lucas fyrr í árr þegar að hann var hjá Norrköping fyrr á árinu. Ég sagði við hann, að hann yrði að fara spila fleiri mínútur. Hann þyrfti að gera það á þeim aldri sem hann er á til þess að þróa sinn leik,“ sagði Åge Hareide á blaðamannafundi Íslands núna í morgun.
Andri Lucas fór til danska úrvalsdeildarfélagsins Lyngby á láni þar sem að hann hefur blómstrað undir stjórn Freys Alexanderssonar, þjálfara liðsins.
„Hann hefur verið að standa sig mjög vel núna með Lyngby. Spilar mikið og skorar fullt af mörkum. Hann legur hart að sér og getur klárað færin. Hann á það skilið að vera í þessum landsliðshópi. Hann hefur unnið sér það inn með frammistöðum sínum.“
Andri Lucas á að baki fimmtán A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur í þeim leikjum skorað 4 mörk. Þá á hann að baki landsleiki fyrir öll yngri landslið Íslands.