Þetta sagði Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi í morgun þar sem hann var mættur ásamt fulltrúum frá hinum stjórnarflokkunum og stuðningsflokki stjórnarinnar, Svíþjóðardemókrötum.
„Myndavélarnar gegna lykilhlutverki í svona stöðu,“ sagði Strömmer. Hann sagði að eftirlitsmyndavélum muni fjölga mikið og þá verði þeim lagabreytingum sem ráðast þurfi í í tengslum við eftirlitsmyndavélar hraðað. Myndavélum lögreglu í almannarýminu verði þannig fjölgað um 2.500 á næsta ári, í stað 1.600 líkt og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Í því umhverfi þar sem sífellt færri þora að ræða við lögreglu er þörfin á tæknilegum sönnunargögnum mikil og skiptir sköpum. Við höfum séð að öryggismyndavélar gegna lykilhlutverki,“ sagði Strömmer.
Ráðherrann sagði sömuleiðis þær lagabreytingar sem ráðast þurfi í muni skila sér í að hægt verði að nýta gervigreind til að bera kennsl á einstaklinga á upptökum þannig að auðveldara verði að hafa uppi á glæpamönnum. Sjálfvirkur aflestur á bílnúmerum verður einnig nýtt tól sem muni nýtast lögreglu.
Lagabreytingar fela einnig í sér að lögregla mun fá auknar heimildir til að nýta dróna og aðgang að upptökum úr vegamyndavélum samgönguyfirvalda.