Fótbolti

Allt jafnt á toppnum eftir að Inter tapaði óvænt á heimavelli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lautaro Martínez svekktur á svip
Lautaro Martínez svekktur á svip Getty Images

Alls fóru sex leikir fram í sjöttu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar í dag. AC Milan jafnaði Inter á toppi deildarinnar eftir óvænt tap Inter gegn Sassuolo. 

Inter var fyrir þennan leik á fimm leikja sigurhrinu í deildinni, með fullt hús stiga og þriggja stiga forskot á nágranna sína í AC Milan. En eftir að hafa komist marki yfir rétt undir lok fyrri hálfleiks mættu gestirnir á skotskónum í seinni hálfleikinn, settu tvö og tóku stigin þrjú. 

AC Milan vann fyrr í dag 3-1 sigur á Cagliari og liðin sitja því jöfn í efsta sætinu. 

Ríkjandi meistarar í Napoli unnu 4-1 sigur á Udinese. Victor Osimhen lék leikinn og skoraði mark þrátt fyrir að standa í ströngu við liðið sitt þessa dagana vegna grínmyndbanda sem félagið birti af honum á samfélagsmiðlum. 

Lazio skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og vann öruggan sigur gegn Torino, Matías Vecino og Mattia Zaccagni skoruðu mörkin. 

Það voru svo þrír bragðdaufir leikir sem enduðu með eins marks sigri í dag. Verona tapaði gegn Atalanta, Empoli vann gegn Salernitana og að lokum var það Juventus sem vann Lecce. Juventus er í 3. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir toppliðunum frá Mílanó. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×