Umfjöllun: Þýskaland - Ísland 4-0 | Himinn og haf á milli liðanna Sindri Sverrisson skrifar 26. september 2023 19:06 Klara Bühl fagnar eftir mark gegn Íslandi í kvöld en vonbrigðin leyna sér ekki hjá Berglindi Rós Ágústsdóttur. Getty/Edith Geuppert Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mátti þola 4-0 tap, og hefði vel getað tapað stærra, er liðið heimsótti Þjóðverja í Þjóðadeild UEFA í dag. Íslenska liðið átti ekki eitt einasta skot á mark og var himinn og haf á milli liðanna. Þar með náði Þýskaland í sín fyrstu þrjú stig, eftir að hafa tapað 2-0 gegn Danmörku á föstudag, en Ísland er einnig með þrjú stig eftir 1-0 sigur sinn gegn Wales. Næstu leikir Íslands verða á heimavelli gegn Danmörku og Þýskalandi í lok október en riðlakeppninni lýkur svo í byrjun desember með útileikjum við Wales og Danmörku. Neðsta lið riðilsins fellur niður í B-deild og miðað við spilamennsku Íslands í kvöld, og í raun einnig gegn Wales, virðist á hreinu að barátta Íslands verði við Wales um að forðast beint fall. Gallinn er að liðið í 3. sæti er ekki heldur öruggt um að halda sér í A-deild, heldur þarf að fara í umspil við lið úr B-deild. Allir (langsóttir) draumar um að vera með í baráttunni um efsta sæti, og þar með möguleika á ólympíusæti, fuku hins vegar langt út um gluggann í kvöld. Það þarf þó ekki að koma á óvart miðað við hve mikið íslenski landsliðshópurinn hefur veikst á síðasta ári, með forföllum af ýmsu tagi, og ekki bætti úr skák að Sveindís Jane Jónsdóttir skyldi detta út rétt fyrir þessa fyrstu tvo leiki Íslands í keppninni. Íslenska liðið var afar varnarsinnað í kvöld eins og búast mátti við, og leyfði þýska liðinu að halda boltanum. Frá leiknum við Wales gerði Þorsteinn Halldórsson tvær varnarsinnaðar breytingar á byrjunarliði sínu og uppleggið var alveg ljóst – að leggjast í vörn og vona það besta. Klara Bühl reyndist Íslandi sérstaklega erfið í kvöld og skoraði tvö mörk. Hér reynir Guðný Árnadóttir að stöðva hana.Getty/Gerrit van Cologne Sú uppskrift gekk hins vegar engan veginn upp. Vonbrigði kvöldsins eru ekki þau að tapa fyrir ógnarsterku liði Þýskalands, sem þrátt fyrir vonbrigðin á HM er eitt það albest skipaða í heimi, heldur hve snemma þýska liðið komst yfir. Þannig mistókst að skapa einhvern skjálfta hjá Þjóðverjum, sem voru vissulega undir mikilli pressu um öruggan sigur, og í staðinn léku þeir við hvern sinn fingur. Klara Bühl skoraði fyrsta markið eftir snarpa sókn á 19. mínútu, með algjöru þrumuskoti rétt utan teigs sem Telma Ívarsdóttir gat lítið gert við í marki Íslands. Glódís Perla Viggósdóttir og Alexandra Popp þekkjast vel og hér eigast þær við.Getty/Gerrit van Cologne Þrátt fyrir að hafa valdið vonbrigðum undanfarið voru þær þýsku dyggilega studdar í Bochum og sýndu yfirburði innan vallar. Þær sóttu án afláts og höfðu nýfengið dauðafæri þegar annað mark leiksins kom, úr vítaspyrnu sem dæmd var á Berglindi Rós Ágústsdóttur. Berglind og Guðný Árnadóttir komu inn í íslenska byrjunarliðið frá leiknum við Wales, meðal annars á kostnað sköpunargleðinnar og sóknarhæfileika Amöndu Andradóttur sem var á bekknum. Hvort hún eða nokkur í íslenska hópnum hefði haft einhver áhrif á þýska liðið í þeim ham sem það var í í kvöld er þó ósennilegt. En Ísland hefði þó kannski náð að skapa sér að minnsta kosti eitt færi, sem ekki tókst að þessu sinni. Engar breytingar urðu á íslenska liðinu í hálfleik og þung sókn Þjóðverja hélt áfram án þess að íslenska liðið næði að tengja saman nema 2-3 sendingar í einu. Þýska liðið gat leyft sér að byrja með Leu Schüller á bekknum en hún kom inn á í seinni hálfleik og skoraði með frábærum skalla, og Bühl bætti svo við öðru marki sínu með skoti utan teigs eftir glæsilega sókn heimakvenna. Á meðan tókst Íslandi aldrei að sækja fram völlinn svo heitið gæti, og ekki einu sinni þrátt fyrir að liðið væri manni fleira síðustu tíu mínútur leiksins eftir að Þjóðverjar höfðu nýtt allar skiptingar sínar þegar Marina Hegering meiddist. Landslið kvenna í fótbolta Þjóðadeild kvenna í fótbolta
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mátti þola 4-0 tap, og hefði vel getað tapað stærra, er liðið heimsótti Þjóðverja í Þjóðadeild UEFA í dag. Íslenska liðið átti ekki eitt einasta skot á mark og var himinn og haf á milli liðanna. Þar með náði Þýskaland í sín fyrstu þrjú stig, eftir að hafa tapað 2-0 gegn Danmörku á föstudag, en Ísland er einnig með þrjú stig eftir 1-0 sigur sinn gegn Wales. Næstu leikir Íslands verða á heimavelli gegn Danmörku og Þýskalandi í lok október en riðlakeppninni lýkur svo í byrjun desember með útileikjum við Wales og Danmörku. Neðsta lið riðilsins fellur niður í B-deild og miðað við spilamennsku Íslands í kvöld, og í raun einnig gegn Wales, virðist á hreinu að barátta Íslands verði við Wales um að forðast beint fall. Gallinn er að liðið í 3. sæti er ekki heldur öruggt um að halda sér í A-deild, heldur þarf að fara í umspil við lið úr B-deild. Allir (langsóttir) draumar um að vera með í baráttunni um efsta sæti, og þar með möguleika á ólympíusæti, fuku hins vegar langt út um gluggann í kvöld. Það þarf þó ekki að koma á óvart miðað við hve mikið íslenski landsliðshópurinn hefur veikst á síðasta ári, með forföllum af ýmsu tagi, og ekki bætti úr skák að Sveindís Jane Jónsdóttir skyldi detta út rétt fyrir þessa fyrstu tvo leiki Íslands í keppninni. Íslenska liðið var afar varnarsinnað í kvöld eins og búast mátti við, og leyfði þýska liðinu að halda boltanum. Frá leiknum við Wales gerði Þorsteinn Halldórsson tvær varnarsinnaðar breytingar á byrjunarliði sínu og uppleggið var alveg ljóst – að leggjast í vörn og vona það besta. Klara Bühl reyndist Íslandi sérstaklega erfið í kvöld og skoraði tvö mörk. Hér reynir Guðný Árnadóttir að stöðva hana.Getty/Gerrit van Cologne Sú uppskrift gekk hins vegar engan veginn upp. Vonbrigði kvöldsins eru ekki þau að tapa fyrir ógnarsterku liði Þýskalands, sem þrátt fyrir vonbrigðin á HM er eitt það albest skipaða í heimi, heldur hve snemma þýska liðið komst yfir. Þannig mistókst að skapa einhvern skjálfta hjá Þjóðverjum, sem voru vissulega undir mikilli pressu um öruggan sigur, og í staðinn léku þeir við hvern sinn fingur. Klara Bühl skoraði fyrsta markið eftir snarpa sókn á 19. mínútu, með algjöru þrumuskoti rétt utan teigs sem Telma Ívarsdóttir gat lítið gert við í marki Íslands. Glódís Perla Viggósdóttir og Alexandra Popp þekkjast vel og hér eigast þær við.Getty/Gerrit van Cologne Þrátt fyrir að hafa valdið vonbrigðum undanfarið voru þær þýsku dyggilega studdar í Bochum og sýndu yfirburði innan vallar. Þær sóttu án afláts og höfðu nýfengið dauðafæri þegar annað mark leiksins kom, úr vítaspyrnu sem dæmd var á Berglindi Rós Ágústsdóttur. Berglind og Guðný Árnadóttir komu inn í íslenska byrjunarliðið frá leiknum við Wales, meðal annars á kostnað sköpunargleðinnar og sóknarhæfileika Amöndu Andradóttur sem var á bekknum. Hvort hún eða nokkur í íslenska hópnum hefði haft einhver áhrif á þýska liðið í þeim ham sem það var í í kvöld er þó ósennilegt. En Ísland hefði þó kannski náð að skapa sér að minnsta kosti eitt færi, sem ekki tókst að þessu sinni. Engar breytingar urðu á íslenska liðinu í hálfleik og þung sókn Þjóðverja hélt áfram án þess að íslenska liðið næði að tengja saman nema 2-3 sendingar í einu. Þýska liðið gat leyft sér að byrja með Leu Schüller á bekknum en hún kom inn á í seinni hálfleik og skoraði með frábærum skalla, og Bühl bætti svo við öðru marki sínu með skoti utan teigs eftir glæsilega sókn heimakvenna. Á meðan tókst Íslandi aldrei að sækja fram völlinn svo heitið gæti, og ekki einu sinni þrátt fyrir að liðið væri manni fleira síðustu tíu mínútur leiksins eftir að Þjóðverjar höfðu nýtt allar skiptingar sínar þegar Marina Hegering meiddist.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26| Valskonur áfram eftir frábæra frammistöðu Handbolti