Enski boltinn

Segir lið sitt geti ekki treyst á að koma alltaf til baka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sáttur með sigurinn en vill byrja leikina betur.
Sáttur með sigurinn en vill byrja leikina betur. EPA-EFE/VINCE MIGNOT

„Við verðum að spila betur en við gerðum í fyrri hálfleik,“ sagði Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, eftir sigur liðsins á Úlfunum í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

„Við spiluðum betur í síðari hálfleik. Í fyrri hálfleik vorum við í vandræðum líkamlega, vorum ekki beittir, vorum ekki við sjálfir. Við reyndum að finna út hverjir væru tilbúnir eftir landsleikjahléið. Það besta var að þetta var búið og ég hélt við gætum ekki spilað verr, þess vegna breyttum við nánast öllu í síðari hálfleik. Bæði hvað varðar taktík sem og líkamlega þáttinn,“ sagði Klopp um leikinn sem Liverpool vann á endanum 3-1 eftir að hafa lent undir.

„Við stýrðum síðari hálfleik nærri allan tímann, þá varð þetta mjög góður leikur. Við áttum skilið að vinna, það er ljóst. Við jöfnuðum, héldum stjórn og unnum leikinn. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur.“

„Gæði af bekknum hjálpa gríðarlega. Gæðin á vellinum voru líka rosaleg þó strákarnir hafi átt erfitt með að sýna það. Ég er ánægður með leikmannahópinn.“

Enn og aftur þurfti Liverpool að koma til baka eftir að lenda undir.

„Það er jákvætt að vinna leiki eftir að maður vinnur leiki en við getum ekki treyst á það allt tímabilið, við getum það ekki.“

„Við verðum almennt að spila betur í fyrri hálfleikjum leikja. Við erum ekki orðnir nægilega stöðugir. Það er of mikið af nýjum hlutum, ég er tilbúinn að vinna í þeim og strákarnir líka. Þeir vildu ekki henda inn handklæðinu og það er gott. Þegar þú vinnur leikina sem þú spilar illa í þá getur þú átt gott tímabil,“ sagði Klopp að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×