Sport

Sú besta í heimi úr leik og nær ekki að verja titilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Iga Swiatek er úr leik á Opna bandaríska risamótinu í tennis.
Iga Swiatek er úr leik á Opna bandaríska risamótinu í tennis. AP Photo/Wilfredo Lee

Pólska tenniskonan Iga Swiatek féll óvænt úr leik á Opna bandaríska risamótinu í tennis í nótt er hún mætti hinni lettnesku Jelenu Ostapenko í 16 manna úrslitum.

Swiatek, sem situr í efsta sæti heimslistans í tennis, átti titil að verja á Opna bandaríska og bjuggust flestir við því að hún myndi hafa betur gegn Ostapenko sem situr í 21. sæti heimslistans.

Swiatek vann fyrsta sætið 6-3, en Ostapenko snéri taflinu við og vann annað settið 6-3 og tryggði sér sigurinn með 6-1 sigri í þriðja og síðasta settinu.

Ostapenko er því á leið í fjórðungsúrslit þar sem hún mætir Coco Gauff frá Bandaríkjunum. Gauff situr í sjötta sæti heimslistans og Ostapenko, sem fagnaði sigri á Opna franska risamótinu árið 2017, fær því annað verðugt verkefni.

Hin pólska Swiatek er hins vegar úr leik og nær því ekki að verja titilinn á Opna bandaríska. Þá er tími hennar á toppi heimslistans að renna sitt skeið í bili þar sem tapið þýðir að Aryna Sabalenka mun stökkva upp í efsta sætið á hennar kostnað að mótinu loknu. Ostapenko hefur vermt toppsætið í heilar 75 vikur í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×