Sport

Biles hefur engu gleymt og bætti níutíu ára met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Simone Biles er sigursælasta fimleikakona allra tíma.
Simone Biles er sigursælasta fimleikakona allra tíma. getty/Ezra Shaw

Simone Biles bætti enn einn rósinni í hnappagat sitt á bandaríska meistaramótinu í fimleikum.

Biles vann sigur í fjölþrautinni en þetta er í áttunda sinn sem hún vinnur til gullverðlauna í greininni. Hún bætti þar með met Alfreds Jochim sem vann sjö gullverðlaun í fjölþraut á árunum 1925-33.

Biles sneri aftur á fimleikagólfið á móti í byrjun mánaðarins eftir tveggja ára hlé frá keppni. 

Á bandaríska meistaramótinu um helgina sýndi hún svo að hún hefur engu gleymt. Biles fékk 118,450 í heildareinkunn, 3,9 meira en Shilese Jones sem vann silfrið.

Hin 26 ára Biles bætti líka annað met en hún er elsta konan sem verður bandarískur meistari í fjölþraut.

Eftir rúman mánuð hefst HM í fimleikum í Antwerp og talið er líklegt að Biles verði þar á meðal keppenda. Svo styttist auðvitað í Ólympíuleikana í París á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×