Innlent

Ís­lendingar feta ó­troðnar slóðir í heimi sýndar­veru­leika

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þeir Hrafn og Gunnar segja sýndarveruleiki bjóða upp á allt aðra möguleika en aðrir miðlar.
Þeir Hrafn og Gunnar segja sýndarveruleiki bjóða upp á allt aðra möguleika en aðrir miðlar. Vísir/Sigurjón

Ís­lenska hug­búnaðar­fyrir­tækið Aldin vinnur nú að gerð fyrsta ís­lenska tölvu­leiksins sem kemur út á PlaySta­tion 5 leikja­tölvuna. Um er að ræða sýndar­veru­leikinn Waltz of the Wizard sem sér­hannaður er fyrir PlaySta­tion VR 2 hjálminn.

„Það sem þessi gler­augu gera er að þau í rauninni taka yfir sjón­sviðið þitt þegar þú ferð inn í þau og það sem þú getur upp­lifað hér er í rauninni hvað sem er og þú getur hegðað þér hvernig sem er,“ segir Gunnar Val­garðs­son, einn stofn­enda Aldin Dyna­mics um PlaySta­tion VR sýndar­veru­leika­gler­augun.

Ofurkraftar draumur í barnæsku

Hrafn Þóris­son, annar stofnandi fyrir­tækisins, segir Waltz of the Wizard snúast um að gera hverjum sem er kleift að upp­lifa hvernig það er að vera með galdra­mátt. Í leiknum er meðal annars hægt að ræða við per­sónur en um er að ræða tækni sem er sér­hönnuð af Ís­lendingunum í Aldin.

Þeir Hrafn og Gunnar segja kosti sýndar­veru­leika þann að hann höfði til spilara á öllum aldurs­hópi. Stefnt er að því að gefa leikinn út í haust og verður endan­leg dag­setning til­kynnt síðar.

„Kosturinn við að hanna hluti eins og veru­leika er að það kann hver sem er að vera í veru­leika,“ segir Hrafn. Hann segir alla hafa átt sér draum í barn­æsku um að hafa ofur­krafta og það geti svo gott sem raun­gerst í leiknum.

„Þú verður að vera í þessum heimi“

Aldin er eitt af fremstu fyrir­tækjum í heimi þegar það kemur að því að nýta og þróa tæknina að baki sýndar­veru­leika­tölvu­leikja. Fyrir­tækið hefur unnið náið með banda­ríska hug­búnaðar­risanum Meta, sem fram­leiðir meðal annars Oculus Rift sýndar­veru­leika­gler­augun.

„Lykillinn er sá, að við erum að reyna að gera eitt­hvað með þessum miðli sem er ekki hægt með öðrum. Þetta virkar ekki á skjá þessi upp­lifun sem þú færð úr þessu. Þú verður að vera í þessum heimi til að fá þessa týpu af upp­lifun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×