„Þetta voru miklar tilfinningasveiflur. Það var mikil gleði, við héldum að við værum búnir að vinna þetta og svo kemur þetta bara, eins og að vera kýldur í magann,“ segir Ernir. Keflvíkingar geti þó tekið eitthvað jákvætt út úr jafntefli við eitt sterkasta lið landsins.
„Við verðum að taka eitthvað með okkur. Við höfum gert þetta áður, gerðum líka jafntefli við þá í fyrri leiknum. Við vitum alveg að við eigum að geta unnið þessi lið en það er eitthvað að stoppa það. Við tökum fullt jákvætt og fínt út úr þessu í dag.“
Leikur kvöldsins var sá fyrsti undir stjórn Haraldar Freys Guðmundssonar sem tók við af Sigurði Ragnari Eyjólfssyni í vikunni. Keflavík hafði gefið út fyrr í vikunni að Sigurði yrði sagt upp eftir leiktíðina en því var breytt eftir tap fyrir HK í Kórnum og Sigurður látinn fara þá þegar.
„Þetta var mjög skrýtið hvernig þetta fór. En þeir breyttu ákvörðuninni og ætli það hafi ekki verið rétt ákvörðun. Það finnst mér, að fá eitthvað nýtt inn fyrst þeir ætluðu að breyta. Það tengist ekkert Sigga eða leikmönnunum, en það hjálpar oft að fá eitthvað nýtt inn og breyta einhverju og við sjáum hvað það endist,“
Ernir segir leikmönnum þá lítast vel á að starfa með Haraldi. Þeir séu ákveðnir í að halda liðinu uppi.
„Það líst öllum mjög vel á Halla, þetta er bara Keflvíkingur í húð og hár og veit hvað það þýðir að spila fyrir félagið. Það er létt yfir þessu, við höldum áfram og björgum félaginu frá falli,“ segir Ernir.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan. Önnur viðtöl eftir leikinn í Reykjanesbæ má sjá að neðan.