The Walt Disney Company birti fjárhagsuppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í gær sem sýnir tekjusamdrátt hjá flestum rekstrarsviðum fyrir utan skemmtigarða fyrirtækisins.
Í október mun verðið á Disney+ áskrift án auglýsinga í Bandaríkjunum fara úr 10,99 bandaríkjadölum í 13,99. Í desember síðastliðnum hækkaði sama áskriftarleið úr 7,99 í 10,99 bandaríkjadali.
Samkvæmt The Irish Times mun verðið til írskra notanda hækka úr 8,99 evrum í 10,99 á mánuði frá og með 1. nóvember. Þá mun fólk greiða 109,90 evrur fyrir árið í stað 89,90 en báðar hækkanirnar taka gildi fyrir núverandi áskrifendur þann 6. desember. Má ráðgera að sama hækkun eigi sér stað víðar í Evrópu, þar á meðal á Íslandi, þar sem fólk greiðir í dag 8,99 evrur á mánuði.
Gera atlögu að frífarþegum
Disney býður upp á ódýrari áskriftarleið með auglýsingum í vissum löndum og verður verð hennar áfram 7,99 bandaríkjadalir á Bandaríkjamarkaði. Að sögn Bob Iger, forstjóra Disney, er markmiðið með verðbreytingunum að ýta fleirum í átt að ódýrari áskriftarleiðinni þar sem auglýsingatekjur Disney séu að aukast.
Disney stefnir á að bjóða upp á sambærilega auglýsingaleið í Evrópu á næstu misserum fyrir 5,99 evrur á mánuði, þar á meðal í Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og á Spáni.
Stjórnendur Disney greindu frá því í gær að eitt prósent samdráttur hafi sést í fjölda áskrifenda í Bandaríkjunum og Kanada á síðasta ársfjórðungi. Á sama tíma hafi áskrifendum erlendis fjölgað um tvö prósent.
Iger gaf sömuleiðis til kynna að til stæði að ráðast í aðgerðir til að fækka þeim notendum sem deila einstaklingsaðgangi með öðrum. Hefur sú stefna nýverið hjálpað Netflix að bæta við sig milljónum nýrra áskrifenda.
Rekstur Disney+ skilaði tapi upp á 512 milljónir bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi, sem lauk 1. júlí, og hefur fyrirtækið nú tapað yfir 11 milljörðum bandaríkjadala á streymisveitunni frá því að hún opnaði árið 2019. Nemur tapið um 1.450 milljörðum íslenskra króna.