Veiði

Laxar og hnúðlaxar í Ásgarði

Karl Lúðvíksson skrifar
Hnúðlaxi landað við Ásgarð í Soginu
Hnúðlaxi landað við Ásgarð í Soginu Mynd: Árni Baldursson

Hnúðlaxinn er farin að sýna sig í Íslensku ánum en í minna mæli en flestir áttu von á en meðal þeirra veiðisvæða sem hnúðlaxinn er mættur í er Sogið.

Eitt besta veiðisvæðið í Soginu er Ásgarður en veiðin þar hefur verið ágæt í sumar þó flestir hafi búist við meiru. Bleikjuveiðin var mjög góð í vor og greinilegt að Veitt og Sleppt á bleikjunni er að skila árangri því sífellt stærri stórar bleikjur eru að veiðast. Fjögurra og fimm punda bleikjur eru að verða daglegt brauð við Ásgarð svo það er eftir meiru að slægjast en bara laxi.

Nýgenginn lax í Soginu við ÁsgarðMynd: Árni Baldursson

Laxveiðin hefur þó verið ágæt en besti tíminn í Soginu er yfirleitt frá seinni partinum í júlí og fram til loka tímabils. það ber þó smá skugga yfir veiðinni en hnúðlaxar eru farnir að taka flugur veiðimanna í Soginu og eru veiðimenn vinsamlegast beðnir um að drepa þann fisk strax. Árni Baldursson eigandi Ásgarðs gerir yfirleitt gott mót við svæðið og átti góðan dag í gær þegar nokkrum löxum var landað og einum hnúðlaxahæng. Eins og áður segir er minna af hnúðlaxi en menn áttu von á en það breytir því ekki að ekki er um auðfúsugest að ræða í árnar og er hann því réttdræpur hvar sem hann veiðist.






×