Veiði

Frostastaðavatn frábært fyrir unga veiðimenn

Karl Lúðvíksson skrifar
Það er mokveiði í Frostastaðavatni
Það er mokveiði í Frostastaðavatni

Inná veiðispjallinu Veiðidellan er frábær á Facebook kemur reglulega spurning frá einhverjum sem spyr hvert sé best að fara með krakka að veiða.

Svarið við þessu er í raun sáraeinfalt. Ef þú ert tilbúinn að leggja á þig smá bíltúr inná hálendið, ert á þokklegum bíl (annað hvort jeppling eða bíl með fjórhjóladrifi) og vilt að allir sem hendi agni í vatn fá fisk þá áttu að kíkja með krakkana í Frostastaðavatn. Vatnið hefur veri ofsetið bleikju í mörg ár en undanfarin þrjú ár hefur verið nokkur grisjun í gangi sem standur enn yfir. Bleikjan er kannski ekki stór sem er að veiðast en hún er ekki öll horuð eins og hún var fyrir þremur árum þegar Veiðivísir fór þangað síðast.

Það er mikið af rétt tæplega punds bleikju en hún er líka afskaplega góð á bragðið og við mælum með að grilla hana heila með smá salti og sítrónu. inná milli eru svo að veiðast 2-3 punda bleikjur og margar bara nokkðu vel haldnar. Vatnið er á Veiðikortinu og það tekur um það bil tvo og hálfan tíma að keyra þangað með stoppi. Já þetta er smá bíltúr en ef þú gerir dag úr þessu með nesti og öllu tilheyrandi er þetta frábær ferð fyrir krakkana. Einfaldast er að vera með flotholt og flugu. Hafðu tauminn fyrir aftan flotholtið um það bil faðm (fullorðins) og notaðu litlar silungaflugur í stæðrum 12-14#. Flugur eins og Peacock, Héraeyra, Pheasant tail, Peter Ross og meira að segja Rauður Frances gefur fisk. 

Kíktu á veðurspánna, náðu þér í Veiðikortið og alls ekki gleyma að hafa meðferðis flugnanet og flugnasprey en það getur verið nokkur fluga þarna uppfrá. Daginn má svo klára í Landmannalaugum sem eru stutt frá eða stoppa í einhverri sundlaug á suðurlandi í ferðinni til baka. 






×