Embættið var auglýst þann 16. júní síðastliðinn. Eftirfarandi sóttu um starfið:
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar
Ágúst Sigurðsson, fagstjóri hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðsstjóri hjá Skógræktinni
Gísli Tryggvason, lögmaður og fyrrverandi talsmaður neytenda
Gunnlaugur Guðjónsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni
Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstur og umhirðu borgarlands
Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni
Páll Sigurðsson, skipulagsfulltrúi hjá Skógræktinni
Land og skógur verður til við samruna Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sem samþykktur var á Alþingi í mars síðastliðnum.
Athygli vekur að af níu umsækjendum um stöðu forstöðumanns eru fimm núverandi starfsmenn Skógræktarinnar en enginn starfsmaður Landgræðslunnar.
Hart tekist á
Þrátt fyrir að hlutverk hinna tveggja sameinuðu stofnana sé um margt sambærilegt, það er að græða upp landið, hefur oft gustað á milli þeirra. Það er að landgræðslufólk og skógræktarfólk hefur tekist hart á um aðferðir og þeim tegundum sem plantað er. Sá sem hreppir stöðuna gæti því átt ærið verk fyrir höndum að sætta hópana.
Árni Bragason landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri eru báðir komnir á aldur og sóttu ekki um forstöðu hinnar nýju ríkisstofnunar.