Fótbolti

„Lítil mistök sem drepa okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Hrafn Róbertsson og félagar stóðu í ströngu gegn ógnarsterku liði Spánar í gær.
Logi Hrafn Róbertsson og félagar stóðu í ströngu gegn ógnarsterku liði Spánar í gær. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Logi Hrafn Róbertsson segir Ísland enn eiga góða möguleika á að komast upp úr sínum riðli á EM U19-landsliða í fótbolta, eftir 2-1 tap gegn Spáni í fyrsta leiknum á Möltu í gærkvöld.

Íslenska liðið mætir næst Noregi á föstudagskvöld en Norðmenn unnu Grikki 5-4 í ótrúlegum leik í gær. Lokaleikurinn í riðlinum er svo við Grikkland næsta mánudag en tvö efstu liðin komast áfram í undanúrslit.

„Það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessu. Bara heiður. Við eigum fyllilega skilið að vera mættir hingað og það er mjög góð tilfinning,“ sagði Logi Hrafn eftir leikinn við Spánverja í gær.

„Mér fannst við spila þéttan varnarleik og þegar leið á leikinn fórum við að halda boltanum meira, og skapa fleiri færi. Það eru lítil mistök sem drepa okkur í þessum leik, sem auðvelt er að koma í veg fyrir,“ sagði Logi Hrafn og bætti við:

„Við fengum mark á okkur úr föstu leikatriði. Við þurfum að skerpa eitthvað á því. Fækka litlu mistökunum og nýta færin okkar.“

Ísland var 1-0 undir í hálfleik eftir mark Yarek Gasiorowski á 16. mínútu, og Victor Barberá kom Spáni í 2-0 strax í byrjun seinni hálfleiks. Ágúst Orri Þorsteinsson náði að laga stöðuna með laglegu marki í lokin. Þrátt fyrir tapið er Logi Hrafn bjartsýnn.

„Ég met möguleika okkar mjög góða. Það eru tveir erfiðir leikir eftir en ég tel okkur eiga góðan séns á að fara upp úr riðlinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×