Þetta segja saksóknarar hana hafa gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að laganna verðir kæmust yfir sönnunargögn, sem myndu benda til sektar hennar. Fyrir dómi í dag fóru þeir fram á að vitnið mætti koma fram nafnlaust, enda óttist það ella útskúfun úr kvikmyndabransanum.
Hannah Gutierrez-Reed var vopnavörður á setti kvikmyndarinnar, sem stórleikarinn Alec Baldwin fer með aðalhlutverkið í. Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um leyndist byssukúla en ekki púðurskot í byssu sem leikarinn miðaði að Hutchins, með þeim afleiðingum að hún lést.
Áður hefur verið greint frá því að Gutierrez-Reed hafi að öllum líkindum verið timbruð, þegar hún hlóð skotvopnið.
Hún hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi og í síðustu viku bættu saksóknarar við ákæru fyrir að eyðileggja sönnunargögn, með því að losa sig við kókaínið. Jason Bowles, verjandi hennar, segir hana munu neita sök í báðum ákæruliðum.
Í samtali við Reuters segir hann að nýju ákæruna skorti bæði staðfestingu og öll sönnunargögn.
„Líkt og með allt annað í málatilbúnaði og rannsókn ríkisins, vekur þetta hörð viðbrögð en skortir alla þýðingu,“ er haft eftir honum.