Palter sem fæddist árið 1928 í Brooklyn menntaði sig í leiklist og átti farsælan feril á sviði sem bæði leikari og leikstjóri. Á seinni hluta sjöunda áratugarins hóf Palter að leika í kvikmyndum og sjónvarpi, yfirleitt sem aukaleikari í smáhlutverkum.
Hans þekktasta og stærsta hlutverk er vafalaust þegar hann lék Isidor Straus, viðskiptamann og stofnanda verslunarkeðjunnar Macy's, í myndinni Titanic eftir James Cameron frá 1997.
Í frægri senu í myndinni sjást hjónin Ida og Isidor Straus faðmast uppi í rúmi á meðan sjórinn fyllir skipið.
Þá var sena sem komst ekki í myndina þar sem Isidor neitar plássi á björgunarbát af því hann vill leyfa öllum konum og börnum að fara í bátinn fyrst. Ida neitar plássinu líka, vill halda heiðri við hjónaband sitt og verða eftir hjá manni sínum á sökkvandi skipinu.
Fréttirnar af andláti Palter berast stuttu eftir OceanGate-harmleikinn þar sem fimm farþegar kafbátsins Titan létust þegar farartækið sprakk á leið sinni niður að Titanic-flakinu sem ferðalangarnir ætluðu að kanna.
James Cameron sem leikstýrði Titanic og þekkir vel til neðansjávarköfunar segir undravert hve lík örlög Titanic og Titan væru. Bæði farartæki hefðu farist vegna skipstjóra sem hlustuðu ekki á aðvaranir og sigldu hraðbyri út í dauðann.
Þá er sérstaklega áhugavert að Wendy Rush, ekkja Stockton Rush, forstjóra OceanGate sem lést um borð í Titan, er afkomandi þeirra Isidors og Idu Straus sem fórust með Titanic árið 1912.
Bæði langalangafi og langalangamma Wendy Rush og eiginmaður hennar létust því á svipuðum slóðum.