Tveir fundust látnir úti á götu á Ilkeston-vegi skömmu eftir klukkan þrjú að íslenskum tíma í nótt, að sögn lögreglunnar í Nottingham. Lögreglumenn voru síðan kallaðir til Milton-strætis þar sem reynt hafði verið að aka sendiferðabíl yfir þrjár manneskjur. Síðar fannst þriðji maðurinn látinn á Magdala-vegi.
Kate Meynell, lögreglustjóri í Nottingham, segir að lögreglan telji að atvikin þrjú tengist og maður sé í haldi. Rannsókn málsins sé þó á frumstigi.
Nokkrar götur í miðborginni voru enn lokaðar með lögregluborðum í morgun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sporvagnaþjónusta liggur niðri vegna atburðanna.