„Það er að nota ekki hitamæli,“ segir Alfreð og gerir miklar athugasemdir við að meta ástand grillkjöts með því að klípa í það og miða við að klípa í lófa sér til að áætla kjarnhitann. „Þar getur þú tekið einhvern Crossfit-gaur og gert það sama, en hann er þá bara alltaf með well-done steik,“ segir Alfreð.

Ekki þjóðernissinnaður grillari
Grillmenning Íslendinga er að sögn Alfreðs að þróast nokkuð. „Það hefur aukist töluvert að fólk er að grilla eitthvað annað en lambalærissneiðar og kjúklingabringur,“ segir Alfreð. Þar er fiskur að koma sterkur inn að hans sögn en í nýrri seríu af BBQ-kónginum sem væntanleg er í sumar er einn þáttur helgaður fiski. Þar kemur risahumar við sögu, sem Alfreð segir sérstaklega góðan.
Þótt lambakjöt og aðrar tegundir hafi margt til síns ágætis kveðst Alfreð enn halda mest upp á klassískt nautakjöt.
Íslensku nauti þá, eða ert þú ekki þjóðernissinni að þessu leyti? Ertu rólegur yfir því?
„Ég er rólegur yfir því. Erlent nautakjöt, bara sorrý, það er bara miklu betra. Jújú, íslenskt nautakjöt er alveg frábært, en það er bara rosalega óstabílt. Þú getur lent á rosalega góðu en svo geturðu líka lent á rosalega slæmu. En með því að taka svona erlent, eins og er bara í Kjötkompaní, þú lendir alltaf á góðu nautakjöti.
Ribeye að hellisbúahætti
Ef Alfreð þyrfti að velja kjöt til að grilla og aðferð til að grilla það strax í kvöld segðist hann mundu fara í kjötverslun, sækja nautaribeye og elda steikina eftir aðferð sem kalla mætti samkvæmt frumstæðri þýðingu „öfugan sviða“ - á ensku ‘reverse sear’.

Þar er steikin hituð upp í 50°C á lágum hita (120°C). Þegar svo er komið er hitinn í grillinu hámarkaður helst upp í allt að 300°C og steikinni skellt aftur á grillið á mínútu á hvora hlið.
Ef um kolagrill er að ræða hvetur Alfreð til þess að gerðar séu tilraunir að hætti hellisbúans (e. caveman) og steikinni fleygt beint á kolin og grindin fjarlægð. Með þessu á að fást hin vænsta steik.