Skoðun

Fyrir­tæki án raf­tækja?

Þorbjörg Sandra Bakke skrifar

Eru raftæki nauðsynlegur partur af starfi þínu?

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að svarið sé já!

Stjúppabbi minn sem er blaðamaður lýsti því eitt sinn fyrir mér hvernig var að skrifa grein áður en tölvur voru nýttar í það verkefni og áratugum áður en veraldavefurinn komst í gagnið. Mér leið eins og hann væri að tala um eitthvað sem hefði gerst í fornöld. Gleðin sem ég greindi í röddinni þegar hann talaði um byltinguna sem fólst í komu faxtækjanna er ógleymanleg!

Raftæki eru orðin svo órjúfanlegur þáttur af nánast öllum athöfnum daglegs lífs að það er vart hægt að hugsa sér samfélagið án þeirra. Hvort sem við horfum til lífsins utan eða innan vinnunnar. Fyrir atvinnulífið hafa raftæki gjörbreytt öllu. Verkefni sem áður tóku marga daga er hægt að leysa núna á nokkrum mínútum.

Staðreyndin er þó sú að raftæki eru búin til úr sjaldgæfum og verðmætum málmum sem takmarkað er eftir af í heiminum. Mikið magn þessara tækja eru notuð í tiltölulega stuttan tíma þar sem þau teljast ekki lengur verðmæt eða nytsamleg. Raftækjaúrgangur er því einn af straumum úrgangs sem vex hvað hraðast á heimsvísu og allt of lítill hluti skilar sér til endurvinnslu. Þörfin fyrir raftæki mun bara halda áfram að vaxa í síbreytilegum heimi snjallvæðingar og gervigreindar en með þessu áframhaldi munum við ekki eiga efnivið í raftæki framtíðarinnar.

Ljóst er að fyrirtæki sem ætla að vera samkeppnishæf og lifa af þurfa að taka með í reikninginn að auðlindir eru takmarkaðar. Regluverk sem er á leiðinni mun kalla á umhverfisvænni leiðir, neytendur munu gera síauknar kröfur til fyrirtækja og svo er það einfaldlega það eina rétta gagnvart framtíðarkynslóðum.

Fyrir atvinnulífið skiptir þess vegna miklu máli að undirbúa sig og vera í stakk búið til að koma auga á tækifærin sem felast í þessum áskorunum.

Við í verkefninu Saman gegn sóun í samstarfi við Sorpu, Úrvinnslusjóð og Tækniskólann bjóðum öll áhugasöm velkomin á fundinn Er‘ekki allir í stuði?! sem verður haldinn í Góða hirðinum 24. maí næstkomandi. Þar sköpum við vettvang til að ræða saman um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að umhverfisáhrifum raftækja, kynnast regluverkinu og hringrásarhagkerfinu sem geymir mörg af þeim úrræðum sem við þurfum á að halda. Skráning og nánari upplýsingar á samangegnsoun.is.

Höfundur er teymisstjóri á svið loftslags og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun. 




Skoðun

Sjá meira


×