Fram kemur í tilkynningu frá bílaumboðinu Heklu, sem flutti leiðtogabílana til landsins fyrir fundinn, að helmingur bílanna hafi þegar verið seldur. Verða þeir afhentir nýjum eigendum á næstu dögum.
Ríkið hafði samband við Heklu síðastliðið haust til að óska eftir bílum fyrir leiðtogafundinn. Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, segir að í kjölfarið hafi umboðið hafið samtal við þýska bifreiðaframleiðandann Audi.
Friðbert segir að það hafi verið erfitt að ná öllum fimmtíu bílunum til landsins í tæka tíð. „Það reyndist þrautin þyngri því eins og mörgum er kunnugt um hefur stríðið í Úkraínu og Kórónuveirufaraldurinn sett strik í reikninginn hvað varðar aðfangakeðju með íhluti og búnað í rafmagnsbíla og því hefur reynst erfitt að fá bíla,“ er haft eftir forstjóranum í tilkynningunni.
„Umboðið þurfti því að hafa töluvert fyrir því að fá þetta magn til landsins enda um nýjan bíl að ræða sem er framleiddur í takmörkuðu magni, enn sem komið er.“