Colton er líklega einn þekktasti piparsveinn sögunnar úr bandarísku raunveruleikaþáttunum heimsfrægu en hann birtist fyrst í Bachelorette þáttunum árið 2018. Vakti hann mikla athygli í það skiptið enda tönnlaðist hann ítrekað á því að hann væri hreinn sveinn.
Þyrnum stráð leit að ástinni
Síðar sama ár tók Colton þátt í strandarútgáfunni Bachelor in Paradise en ekkert gekk í ástarleitinni. Hann fékk þá sína eigin seríu og var aðalnúmerið í eigin Bachelor seríu sama ár, 2018. Kynntist hann þar Cassie Randolph og trúlofuðu þau sig sama ár en hættu saman árið 2020.
Sakaði Randolph hann um allskyns ósæmilega hegðun og sótti hún um nálgunarbann gegn NFL leikmanninum vegna skilaboða hans auk hegðunar. Ári síðar kom Colton svo úr skápnum í morgunfréttaþættinum Good Morning America.
Hann opnaði sig svo upp á gátt í eigin þáttum á Netflix sem báru heitið Coming out Colton. Hann hefur reglulega lýst því yfir upp á síðkastið að hann hafi aldrei verið hamingjusamari en ljóst er að lífshlaup kappans hefur verið þyrnum stráð.
Þriggja daga brúðkaup
Í umfjöllun bandaríska slúðurmiðilsins People um brúðkaupið kemur fram að þeir hafi gift sig á lúxushóteli í Napa sýslu norður af San Francisco í Kaliforníu.
Um var að ræða þriggja daga veislu þar sem 200 manns mættu til að gleðjast með þeim Colton og Brown en brúðkaupið var skipulagt af viðburðarfyrirtækinu Ashley Smith Events. Þeir buðu sínum nánustu til kvöldverðar á föstudagskvöld og fór sjálf athöfnin svo fram á laugardeginum.
„Sama dag og við giftum okkur ætlum við að halda diskópartý við sundlaugina,“ hefur bandaríski miðillinn eftir Colton í aðdraganda brúðkaupsins. „Þetta verður skemmtilegt brúðkaup, það get ég sagt þér!“