„Til hamingju með afmælið Madeleine. Ennþá týnd. Ennþá sárt saknað,“ segir í færslu sem birt er á Facebook-síðu sem foreldrar hennar hafa notað í árabil í tengslum við leitina að dóttur sinni.
Í færslunni kemur fram að leitinni verði haldið áfram eins lengi og þess þarf. Þá fylgir með myndband sem gert var í tilefni afmælisins.
„Við elskum þig og við erum að bíða eftir þér. Við munum aldrei gefast upp,“ segir í myndbandinu. Í því má sjá fjölmargar myndir af Madeleine sem og myndum sem teknar hafa verið í tengslum við leitina að henni.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
Sextán ár síðan Madeleine hvarf
Madeleine hvarf þann 3. maí árið 2007. Hún var þá stödd ásamt fjölskyldu sinni í Praia da Luz í Portúgal. Foreldrar Madeleine höfðu farið út að borða og skilið dóttur sína eftir í úbúð ásamt tveggja ára tvíburasystkinum sínum. Þegar móðir hennar kom til að kíkja á börnin var Madeleine horfin.
Síðan þá hefur hennar verið leitað en án árangurs. Það vakti töluverða athygli í fyrra þegar saksóknarar í Portúgal tilkynntu fyrir rúmu ári síðan að þýskur karlmaður lægi formlega undir grun í tengslum við hvarfið. Enginn hafði legið undir grun í málinu frá því foreldrar Madeleine lágu sjálf undir grun árið 2007.
Christian Brueckner, þýski karlmaðurinn sem grunaður er um að tengjast hvarfinu, hefur neitað öllum ásökunum um slíkt.