Sport

Margrét, Thelma og Valgarð örugg inn á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Íslandsmeistarinn Thelma Aðalsteinsdóttir vann sig inn á HM með árangri sínum á EM í apríl.
Íslandsmeistarinn Thelma Aðalsteinsdóttir vann sig inn á HM með árangri sínum á EM í apríl. FSÍ

Þrír Íslendingar hafa nú fengið sæti á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Antwerpen í Belgíu dagana 30. september til 8. október í haust.

Alþjóðafimleikasambandið staðfesti endanlega í vikunni að þau Thelma Aðalsteinsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Valgarð Reinhardsson fengju sæti í fjölþrautarkeppninni á HM. Það er árangur þeirra á Evrópumótinu í Tyrklandi í apríl sem tryggir þeim HM-farseðilinn.

Valgarð Reinhardsson er kominn með mikla reynslu af stórmótum.FSÍ

Þá má Dagur Kári Ólafsson vera í startholunum því hann er fyrsti varamaður inn á HM.

Valgarð náði bestum árangri þeirra sex íslensku karla sem kepptu á EM í Tyrklandi. Hann hlaut 75.698 stig í fjölrþautinni en Dagur Kári varð næstur á eftir með 75.565 stig.

Thelma, sem líkt og Valgarð varð Íslandsmeistari í lok mars, varð efst íslensku kvennanna á EM en hún hlaut 47.265 stig í fjölþrautarkeppninni. Margrét Lea kom næst af íslensku fimleikakonunum með 45.332 stig, rétt fyrir ofan Hildi Maju Guðmundsdóttur sem hlaut 45.133 stig.

Margrét Lea Kristinsdóttir er ein þriggja HM-fara Íslands sem keppa í Belgíu í haust.FSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×