Tenniskonan Maryna Zanevska er fædd í Úkraínu. Hún er með belgískt ríkisfang og býr í Þýskalandi. Hún er með þátttökurétt á WTA-mótaröðinni í tennis og er í 75. sæti á heimslistanum.
Í gær tók hún þátt á Saint-Malo Open mótinu í Frakklandi þar sem hún mætti hinni bandarísku Katie Volynets. Zanevska vann 6-2 sigur í fyrsta settinu en þá fór sírena í gang við völlinn sem minnti Zanevska á viðvörunarhljóðið sem oft hefur heyrst í heimalandi hennar á meðan á stríðinu þar hefur staðið.

Zanevska fylltist ofsahræðslu og brotnaði niður á vellinum þegar hún heyrði hljóðið. Hún gat haldið leik áfram skömmu síðar en var greinilega ekki í góðu ásigkomulagi og endaði á því að tapa leiknum 2-1.
„Ég veit ekki af hverju, hljóðið í sírenunni heyrðist kannski í tuttugu sekúndur. Mér fannst sem það væri heil eilífð. Ég byrjaði að gráta og gat ekki hætt,“ skrifar Zanevska á Instagram.
„Venjulega þegar ég stíg inn á völlinn er það staður þar sem ég gleymi mínum vandamálum. Í þetta skiptið risti þetta djúpt.“