Tíu létust og níu særðust í borginni Uman þar sem flaugar lentu á íbúðablokkum og kona og þriggja ára dóttir hennar létust í borginni Dnipro að sögn borgaryfirvalda. Þá heyrðust einnig sprengingar í höfuðborginni Kænugarði og í Kremenchuk og Poltava að sögn Interfax fréttaveitunnar.
Herforingi Kænugarðs sagði í samtali við BBC að árásirnar þar í borg væru þær fyrstu eftir langt hlé, en fimmtíu og einn dagur er frá síðustu flugskeytaárás á borgina.
Engar fregnir hafa borist af manntjóni í höfuðborginni en loftvörnum borgarinnar tókst að skjóta flestar flauganna niður áður en þær lentu á skotmörkum sínum.