Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Tennishallarinnar. Hjörtur Þór Grétarsson, fráfarandi formaður sambandsins, fær þar þakkir fyrir formannsstörf sín síðastliðin sex ár og er Magnús boðinn velkominn í starfið.
Á ummælaþræðinum við færslunni hafa ýmsir óskað Magnúsi til hamingju og þakkað Hirti fyrir hans störf. Þar á meðal þjálfarar í Tennishöllinni á borð við Luis Carillo Rueda, Patrícia Šíšo Husáková og Milan DK.
Ört vaxandi íþrótt
Tennissamband Íslands er rúmlega 35 ára gamalt félag en það var stofnað 14. nóvember árið 1987.
Á vef sambandsins er stiklað á stóru um sögu tennisíþróttarinnar á Íslandi. Þar segir að þrátt fyrir að tennis hafi verið leikinn á fyrri hluta síðustu aldar hafi ekki komist skrið á skipulagða iðkun fyrr en á áttunda áratugnum þegar íþróttahús landsins höfðu náð nægjanlegri stærð.
Með stofnun Tennissambandsins var settur aukinn kraftur í tennisiðkun sem fór síðan á fullt þegar Tennishöllin í Kópavogi var stofnuð árið 1995. Þá varð tennis að heilsárs íþróttagrein fyrir almenning og afreksfólk.