„Það er alger þögn hjá yfirvöldum,“ segir Bubbi í færslu á Facebook. Hann tekur andlát vegna náttúruhamfara sem dæmi og segir að landsmenn og yfirvöld væru löngu búin að grípa inn í ef einstaklingarnir hefðu látist af þeim völdum.
„Við hljótum að geta gert betur en að láta sem ekkert sé að við verðum að vakna,“ heldur Bubbi áfram. Hann segir að sex af ellefu, sem létust vegna fíkniefnaneyslu, hafi látist vegna notkunar ópíóða.
Kompás hefur ítarlega fjallað um notkun ópíóða en fram kom í umfjöllun Kompáss í fyrra að Ísland væri í miðjum ópíóðafaraldri. Lyfjatengd andlát höfðu aldrei verið fleiri á sex mánaða tímabili en þau voru fyrri hluta árs 2021. Þau voru þá 24.