Eldur kviknaði í Chanfeng-einkasjúkrahúsinu síðdegis í gær. Fólk flúði meðal annars út um glugga með því að hnýta lök saman. Auk sjúklinganna 26 eru hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og aðstandandi sjúklings á meðal þeirra látnu, að sögn AP-fréttastofunnar. Þrír eru sagðir þungt haldnir af sárum sínum en alls eru 39 manns til meðferðar.
Upptök eldsins eru enn í rannsókn en grunur leikur á að hann hafi kviknað út frá neistum frá logsuðutæki verkamanns sem vann við framkvæmdir á legudeild sjúkrahússins. Á meðal tólf manna sem voru handteknir vegna eldsvoðans var verkstjóri vinnuflokksins.
Algengt er að öryggisreglur séu virtar að vettugi í Kína. Slys verða gjarnan á framkvæmdasvæðum vegna lélegs öryggisviðbúnaðar og mikillar yfirvinnu verkamanna. Embættismönnum er síðan mútað til þess að líta fram hjá brotum á reglum.