Það kemur endanlega í ljós í dag hvort FH fær leyfi til að spila leikinn gegn Stjörnunni á frjálsíþróttavellinum. FH-ingar vilja hlífa aðalvellinum og Stjörnumenn voru ekki tilbúnir að skipta á heimaleikjum. Aðstaðan á frjálsíþróttavellinum verður tekin út af fulltrúum KSÍ í dag og þá verður tekin endanleg ákvörðun um hvort spila megi leikinn á vellinum sem er jafnan kallaður miðvöllurinn.
Ef FH-ingar fá grænt ljós frá KSÍ verður því leikur í efstu deild á frjálsíþróttavellinum í fyrsta sinn í 21 ár, eða síðan FH og Fylkir mættust þar í 1. umferð Símadeildarinnar 2002.
Vonandi fyrir FH-inga fer leikurinn á morgun betur en leikurinn fyrir 21 ári, því þeir töpuðu honum 0-3. Þetta var fyrsti deildarleikur FH undir stjórn Sigurðar Jónssonar.
Alls voru 1530 manns á leiknum og þeir sáu Fylkismenn í fantaformi. Sævar Þór Gíslason kom Árbæingum yfir strax á 4. mínútu. Hann bætti öðru marki við á 21. mínútu. Björn Viðar Ásbjörnsson skoraði svo þriðja mark Fylkis fjórum mínútum fyrir hálfleik. Fleiri urðu mörkin ekki og Fylkismenn fóru heim í Árbæinn með stigin þrjú.
Á miðju FH í leiknum var Heimir Guðjónsson, núverandi þjálfari liðsins. Fyrirliði FH í leiknum var Hilmar Björnsson sem er íþróttastjóri RÚV í dag. Meðal annarra leikmanna Fimleikafélagsins á þessum tíma má nefna markvörðinn Daða Lárusson, Frey Bjarnason, Jónas Grana Garðarsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson og Jón Þorgrímur Stefánsson.

„Byrjunin var alveg hræðileg og reyndar fyrri hálfleikur allur og þeir fara þrisvar yfir miðju og skora þrjú mörk,“ sagði Jón Þorgrímur við DV eftir leikinn.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá mörkin úr umræddum leik FH og Fylkis 20. maí 2002.
FH endaði í 6. sæti Símadeildarinnar tímabilið 2002. Eftir það tók Ólafur Jóhannesson við liðinu og blómaskeið þess hófst. FH-ingar enduðu í 1. eða 2. sæti efstu deildar á árunum 2003-16 og unnu samtals átta Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla.
Fylkir endaði aftur á móti í 2. sæti og rétt missti af Íslandsmeistaratitlinum til KR. Annað sætið 2000 og 2002 er besti árangur Fylkismanna í sögunni.
Leikur FH og Stjörnunnar hefst klukkan 16:00 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.