Á vef Veðurstofunnar segir að frost verði víða á bilinu eitt til tólf stig, en frostlaust suðvestantil yfir daginn.
„Í kvöld og nótt nálgast skil landið úr suðri og það bætir í vind. Á morgun er útlit fyrir allhvassa eða hvassa austan- og norðaustanátt, en syðst á landinu verður stormur eða rok (20-28 m/s). Þessu fylgir snjókoma með köflum við suðurströndina, en annars staðar verða dálítil él.
Á svæðinu frá Eyjafjöllum og austur í Öræfi verður því ekkert ferðaveður á morgun, bálhvasst og auk þess líkur á hríð,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Austan 10-18 m/s, en 20-28 syðst á landinu. Snjókoma með köflum við suðurströndina, annars dálítil él, en þurrt að kalla á Vesturlandi. Frost 1 til 8 stig, en frostlaust suðvestanlands yfir daginn.
Á miðvikudag: Norðaustan 10-18, en 18-25 við suðausturströndina. Dálítil él á austanverðu landinu og með norðurströndinni, en léttskýjað á Suðvestur- og Vesturlandi. Dregur smám saman úr vindi eftir hádegi. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag og föstudag: Norðaustan og norðan 5-13 og dálítil él, en lengst af þurrt og bjart sunnan heiða. Frost 0 til 10 stig.
Á laugardag og sunnudag: Norðlæg eða breytileg átt og víða líkur á éljum. Áfram kalt í veðri.