Hinn 38 ára gamli Ronaldo skoraði þrennu þann 25. febrúar en hafði ekki skorað í tveimur leikjum í röð þegar kom að leik Al-Nassr og Abha. Það var á þriðju mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks sem boltinn féll fyrir fætur portúgalska framherjans sem óð af stað í skyndisókn.
Honum til mikillar undrunar, og gríðarlegs pirrings, þá ákvað dómarinn að flauta til hálfleiks. Ronaldo, sem er fyrirliði Al-Nassr, var vægast sagt brjálaður yfir ákvörðun dómarans að flauta fyrri hálfleikinn af þegar hann var enn á sínum eigin vallarhelmingi.
Fyrirliðinn baðaði út höndunum, tók boltann upp og þrumaði honum langleiðina upp í stúku. Fékk Ronaldo gult spjald að launum.
Without a goal in three appearances, Cristiano Ronaldo was NOT impressed when the referee blew for half time during an Al Nassr counter-attack #BBCFootball #AlNassr pic.twitter.com/KwCP6cUx4c
— BBC Sport (@BBCSport) March 15, 2023
Leiknum lauk með 3-1 sigri Al-Nassr sem er þar með komið áfram í Konungsbikarnum. Ronaldo skoraði hvorki né lagði upp í leiknum og var tekinn af velli á 87. mínútu.
Ronaldo hefur skorað 8 mörk í 7 deildarleikjum í Sádi-Arabíu, þar á meðal eina þrennu og eina fernu, ásamt því að gefa 2 stoðsendingar. Í tveimur leikjum í Ofur- og Konungsbikarnum hefur honum hins vegar mistekist að skora.