Zlatan er kominn aftur á ferðina eftir meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni í níu mánuði. Hann hefur spilað tvo leiki með AC Milan að undanförnu.
Framundan er landsleikjahlé þar sem Svíþjóð mætir Belgíu og Aserbaídsjan í undankeppni EM 2024. Margir velta því nú fyrir sér hvort Zlatan verði í sænska landsliðshópnum í þessum leikjum.
„Þið sjáið það á miðvikudaginn,“ sagði Andersson er hann var spurður út í Zlatan í hlaðvarpi hjá Aftonbladet.
„Ég hef áður sagt að ef Zlatan er heill og frískur, jafnvel þótt hann geti ekki byrjað leiki, geti hjálpað okkur.“
Zlatan hætti upphaflega í landsliðinu eftir EM 2016. Hann sneri aftur í það vorið 2021 og lék fjóra leiki með því. Hann spilaði svo með Svíum gegn Pólverjum í umspili um sæti á HM 2022. Zlatan hefur alls leikið 121 landsleik og skorað 62 mörk.