Á meðan það er skítakuldi úti, mikið frost, norðan garri og leiðindi þá njóta garðyrkjubændur og starfsfólk þeirra þess að vera inni og undirbúa söluna fyrir vorið. Til dæmis í Flóru, garðyrkjustöð, sem er í eigu tvennra hjóna í Hveragerði. Starfsmenn stöðvarinnar eru átta en nú eru þeir á fullu við að undirbúa opnun stöðvarinnar í lok mars.
„Já, vorið er allavega komið inn í gróðurhúsin. Við erum á fullu að undirbúa vorið, fyrst aðeins páskana, en aðallega er það vorið hjá okkur núna. Fyrstu blómin eru aðeins farin að sýna sig og eru að fara á markað til Reykjavíkur en mesta salan er svo auðvitað páskarnir og svo meira í maí og júní,“ segir Þorvaldur Snorrason, einn eiganda.
Þorvaldur segir þennan árstíma alltaf skemmtilegan inn í gróðurhúsunum, allt sé að verða meira og minna grænt og sólin gægist alltaf meira og meira inn um glerið á gróðurhúsunum.
„Við erum að sá og við erum að prikla og potta og við gerum ekkert annað en að reyna að fylla þessi gróðurhús, sem við svo tæmum svo í byrjun maí. Við erum mjög stór í ræktun sumarblóma og eru með mikið úrval af þeim, til dæmis stjúpum og fjólum,“ segir Þorvaldur.

En er ekki gott að fá að vinna inni þegar það er svona kalt úti?
„Jú, það er rosalegur munur. Það voru mínus átta gráður úti í dag og það eru 15 til 20 gráður hér inni, þannig að það er bara rosalega gott, ég tala nú ekki um þegar sólin er.“
