Milan hélt hreinu í Lundúnum og skildi Tottenham eftir í sárum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það gekk lítið upp hjá Harry Kane og félögum hans í kvöld.
Það gekk lítið upp hjá Harry Kane og félögum hans í kvöld. Vísir/Getty

Ítalíumeistarar AC Milan eru komnir áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 0-0 jafntefli gegn Tottenham í kvöld. Milan vann fyrri leikinn og skilur Tottenham eftir með sárt ennið.

Það var spenna fyrir leikinn í kvöld enda AC Milan aðeins með 1-0 forystu í farteskinu eftir fyrri leikinn á Ítalíu. Fyrri hálfleikur var bragðdaufur. Leikmenn Tottenham náðu sér alls ekki á strik og mátti heyra nokkra áhorfendur baula þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í seinni hálfleik börðust Milan menn fyrir sínu og vel það. Tottenham pressaði en gekk illa að skapa sér færi. Sergio Romeru fékk glórulaust seinna gula spjald seint í síðari hálfleik og gerði samherjum sínum engan greiða með heimskulegri tæklingu sinni úti við hliðarlínu.

Í uppbótartíma kom hins vegar besta færi Tottenham í leiknum. Harry Kane átti þá góðan skalla sem Maignan í marki AC Milan varði frábærlega og forðaði Milan frá framlengingu.  Í kjölfarið fékk Milan skyndisókn þar sem Divock Origi var nálægt því að gulltryggja farseðilinn áfram en skot hans fór í stöngina.

Tottenham tókst hins vegar ekki að skora. Lokatölur 0-0 og leikmenn Milan fögnuðu gríðarlega í lokin en enginn meira en Stefano Pioli þjálfari liðsins á bekknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira