Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla – Save the Children sem kom út í dag, þriðjudaginn 7. mars og tóku Barnaheill á Íslandi þátt í gerð þeirrar skýrslu.
Þá kemur fram að árið 2021 áttu 24,1 prósent íslenskra heimila í erfiðleikum með að standa straum af daglegum útgjöldum og ná endum saman.
Í rúmlega helmingi tilfella voru það heimili einstæðra foreldra og 16,1 prósent voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna með börn.
Árið 2015 samþykktu stjórnvöld á Íslandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þar með að minnka fátækt um helming í landinu fyrir árið 2030.
Fram kemur í skýrslunni að engar áætlanir hafi verið gerðar um það né stefna mörkuð.
„Tíminn styttist og því mikilvægt að hraða áætlunum og aðgerðum. Barnaheill leggja áherslu á að uppræta þurfi fátækt með öllu meðal barna því að eitt barn sem elst upp við fátækt á Íslandi er einu barni of mikið.“
Í skýrslunni kemur jafnframt fram meiri líkur séu á að börn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt eða um 15,8 prósent þeirra. Að auki eru fram undan miklar áskoranir í kjölfar Covid heimsfaraldurs, vegna stríðs í Úkraínu og vegna loftslagsbreytinga sem okkur ber að takast á við.
Verðbólga á Íslandi hefur meira en tvöfaldast á milli ára, úr 4,3 prósent í byrjun árs 2022 í rúmlega 10 prósent í lok febrúar árið 2023. Verðbólga og hækkun vaxta hefur aukið greiðslubyrði fjölskyldna af húsnæðislánum, leiguverð hefur hækkað og allur framfærslukostnaður.
Eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði eiga á hættu að búa við fátækt og 8,2 prósent þeirra búa við skort.
Fátækt er brot á mannréttindum
,,Stjórnvöld þurfa að setja sér stefnu og aðgerðaáætlun til þess að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi," segir Margrét Júlía, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.
Barnaheill hafa nú sett af stað undirskriftarsöfnun sem verður afhent forsætisráðherra.
,,Sú stefna og áætlun þarf að tryggja öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til menntunar, heilsu, verndar og þátttöku. Fátækt er brot á mannréttindum barna og ber okkur samfélagsleg skylda til að tryggja að ekkert barn sé utangarðs vegna fátæktar,” segir Margrét Júlía jafnframt.