Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan:
Hildur flutti rétt fyrir tvítugt til Ameríku og var búsett þar í nokkur ár, sem breytti sýn hennar á lífið. Mannréttindabaráttur vestanhafs veittu henni innblástur sem og tækninýjungar en henni hefur alltaf þótt áhugavert að fylgjast með breytingum og þróun. Hún segir það meðal annars ástæðu fyrir því að hana langi að lifa lengi.
Hildur hóf að skapa pólitísk verk upp úr 1970 og var meðal annars meðlimur í Rauðsokkahreyfingunni.

Manneskjan horfin
Rauður þráður spannar stóran hluta verka Hildar, sem veitir innsýn í líf sitt og list í þættinum hér að ofan.
„Þá erum við stödd rétt í kringum 1970. Við erum búin að fara í gegnum svo sterkt abstrakt tímabil að manneskjan er eiginlega horfin út af myndinni. Ég fór að berjast, hetjulega baráttu næstum því, við að koma manneskjunni aftur inn á myndflöt. Það hafa verið mörg verk sem ég gerði af skyrtum, hausum og hlutum af manneskju,“ segir Hildur sem var statt og stöðugt að fikra sig nær markmiðinu.
„Þetta var allt miklu meira en að segja það. Það var mjög erfitt að koma manneskjunni aftur inn á myndflötinn og ég veit það af viðtölum við aðra að ég var ekki ein í þessari baráttu.“
Viðurkenningin mikilvæg
Aðspurð afhverju þetta hafi verið henni mikilvægt svarar Hildur:
„Mig langaði bara að tala um manneskjuna. Ég var búin að kynnast ýmsu þá og þegar, þetta var 1970. Þá komu konurnar saman og fóru að tala um að þær vildu gera eitthvað í sínum málum, jafna kynjahlutverkin.
Okkur langaði að fá viðurkenningu á okkar vinnu og störfum og eiga möguleika á að læra. Svo mjög gjarnan að fá svolitla hjálp, þannig að við hefðum barnaheimili og gætum sinnt líka því að mennta okkur. Ég hafði orðið fyrir áhrifum í Ameríku,“ segir Hildur.
„Martin Luther King var farinn að predika og það var viss birta í samfélaginu. Það greip mig löngun til að tjá fólkið og lífið í kringum mig.“

Tákn um þessa tíma
Hildur bendir þá á verk eftir sig sem ber heitið Fiskikonurnar.
„Þetta teppi hér, ég þori eiginlega alveg að segja að sé orðið tákn um þessa tíma. Hér ákvað ég að ég ætlaði að koma heilli manneskju inn á myndflöt.
Það var mjög erfitt að finna hvernig ætti að koma manneskjunni inn á myndflöt svo ég gekk í læri hjá meistara Kjarval, fór niður í Landsbankahús í Austurstræti upp í ganginn en þar er stór veggmynd af fiskikonum og ég sat þar.“

Þetta er pólitískt verk
Hildur fór svo niður í Granda í frystihús til að skissa fiskikonur.
„Þetta átti að vera bara módelteikning og ég var ósköp ánægð, komin heim og búin að vinna þetta. En það sat alltaf eftir í mér, það var hátt til lofts í salnum og þarna uppi er gluggi. Þar sat þessi karl og horfði niður á konurnar,“ segir Hildur og bendir á karlkyns viðfang fyrir miðju efst á verkinu.
„Ég hef aðeins unnið í fiski og það er kalt og tíminn er lengi að líða. Ég sá að hann hafði það gott og hann sat þarna.
Maður var að berjast fyrir að fá launajöfnuð og ég var alveg sannfærð um það að hann væri á betra kaupi en þær við það að horfa á þær vinna.
Svo að hann bara þrengdi sér inn í vitund mína svo ég óf hann og svo saumaði ég þetta léttilega saman, það sést hvergi að þetta eru tvö stykki. Svo sagði ég: „Þetta er pólitískt verk.“
Þar eiginlega byrjaði svolítið mín saga af pólitískum verkum sem kölluð voru þá og þetta þótti á suman máta forsmán, því list átti að snúast úr fagurfræði. Þetta mæltist ekki vel fyrir.“
Sigrún Inga Hrólfsdóttir sýningarstjóri verður með leiðsögn um sýninguna Hildur Hákonardóttir: Rauður þráður í dag, sunnudaginn 5. mars, klukkan 14.00. Nánari upplýsingar má finna hér.
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.