Mótmæli voru einnig í Þessaloníku og Larissu, nærri slysstaðnum þar sem tvær lestir rákust saman norður af borginni í gær.
Samgönguráðherra landsins sagði af sér embætti í gær vegna málsins og hefur ríkisstjórn Grikklands heitið því að koma á sjálfstæðri rannsóknarnefnd til að tryggja að réttlæti í málinu nái fram að ganga.
Búið er að lýsa yfir þriggja daga þjóðarsorg í Grikklandi vegna slyssins þar sem farþegalest rakst á vöruflutningalest sem varð til þess að mikill eldur kom upp í fremstu vögnunum sem einnig fóru út af sporinu og eyðilögðust.
Um 350 farþegar voru um borð í farþegalestinni, margir hverjir á þrítugsaldri og á leiðinni heim til Þessalóníku eftir að hafa fagnað upphafi lönguföstu grísku rétttrúnaðarkirkjunnar að því er er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis segir að hörmulegum, mannlegum mistökum hafi verið um að kenna og hefur 59 ára stöðvarstjóri í Larissa verið handtekinn vegna gruns um manndráp af gáleysi. Hann neitar sök og segir að um tæknileg mistök hafi verið um ræða.
Félagar í stéttarfélögum lestarstarfsmanna telja að öryggiskerfi hafi ekki virkað í landinu svo árum skiptir og hyggjast þeir leggja niður störf í dag til að mótmæla því sem þeir kalla „opinbera vanrækslu“ í lestarkerfi landsins.