Í tilkynningu frá Kadeco segir að þau hafi þegar hafið störf.
„Sigrún Inga stýrir viðskipta- og markaðsmálum hjá Kadeco. Hún kemur frá Isavia þar sem hún starfaði sem deildarstjóri samgöngu- og fasteignatekna á Keflavíkurflugvelli og þar áður sem lögfræðingur viðskiptasviðs og sérfræðingur í viðskiptaþróun. Sigrún er með BA og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og situr í núverandi stjórnum Awarego og Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi.
Samúel Torfi hefur u.þ.b. 20 ára reynslu af fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfis- og skipulagsmála. Hann er nýr þróunarstjóri Kadeco en starfaði áður sem ráðgjafi á umhverfis- og skipulagssviði hjá VSÓ ráðgjöf. Samúel hefur sömuleiðis starfað við fasteignaþróun hjá Klasa og hjá Þyrpingu og við verkfræðiráðgjöf í skipulagi og samgöngum hjá Ramböll í Danmörku og hjá Línuhönnun, nú Eflu. Samúel er með M.Sc. í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku,“ segir í tilkynningunni.
Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur það að meginmarkmiði að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.